Vefur vikunnar að þessu sinni er vefur Svef, samtaka vefiðnaðarins. Það er nefnilega í lok þessarar viku sem íslensku vefverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Gamla Bíó.
Tilfinningin er eiginlega eins og það sé Óskarsvika, eftirvæntingin er mikil og spennustigið hátt. Af hverju? Jú, ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að hljóta tilnefningu og hljóta íslensku vefverðlaunin. Það var árið 2008.
Þegar ég hóf störf hjá Íslandspósti stóðu yfir framkvæmdir á aðalskrifstofunni og inni í skáp fann ég verðlaunagrip íslensku vefverðlaunanna, sem postur.is hafði hlotið sem besti fyrirtækjavefurinn aldamótaárið 2000. Gripinn, steinsteypuklump í formi túpuskjás, setti ég seinna á skrifborðið hjá mér og setti mér það markmið þegar vefurinn var endurhannaður að hljóta þessi verðlaun aftur. Það tókst.
Það að ná markmiðum sínum er góð tilfinning, aðeins tilfinningarnar sem fylgja því að láta drauma sína rætast held ég að skáki upplifuninni.
Í tilfelli íslensku vefverðlaunanna, þá er það jafningjahópurinn, hinir fagmennirnir í bransanum sem eru að gefa þér klapp á bakið. Hrós, sem skortir oft innan þeirra fyrirtækja sem unnið er fyrir hverju sinni. Skilningur, á því hvaða áherslur eru lagðar og hverju þarf að fórna, til þess að gera góðan vef.
Þess vegna get ég eiginlega ekki beðið eftir föstudeginum.