Vefur vikunnar að þessu sinni er vefur Vegagerðarinnar, eða sá hluti hans sem ég geri ráð fyrir (óstaðfest) að sé mest notaður: Færð á vegum.
Okkur Íslendingum er veðrið oft ofarlega í huga. Aðallega vegna þess að það skiptir okkur máli. Það breytir eiginlega engu á hvaða árstíma um er að ræða, það hefur líka áhrif á okkur á sumrin þegar rignir gengdarlaust fyrir sunnan og sólin skín allan sólarhringinn í 20°C + fyrir norðan.
Á veturna er þetta ekki bara spurning um veðrið, heldur líka færðina. Komumst við þangað sem við viljum fara? Eða er betra að bíða eftir betra færi og fara ekki út í neina vitleysu?
Framsetning færðar á vegum á vef Vegagerðarinnar er einföld og auðskiljanleg. Miklu magni af upplýsingum er miðlað með litum og táknum, við erum jú fljótari að lesa myndir en texta. Hægt er að sjá heildaryfirlit, eða skoða hvern landshluta fyrir sig, allt eftir því hvað við á fyrir hvern notanda.
Vefur, sem mjög trúlega á þátt í því að forða fjártjóni og bjarga mannslífum.